Við segjum Búrgúndahérað, ekki Burgundy.

Í fréttamiðli sem nú hefur tekið upp þann sið að afskræma erlend staðarnöfn sem notuð hafa verið áratugum saman í íslensku (Chile og Bangladesh t.d.) er varla til of mikils mælst að haldið sé í aldagamlar íslenskar orðmyndir. Við höfum alltaf skrifað og talað um vínræktarhéraðið Búrgund eða Búrgundahérað. Að Englendingar kalli héraðið Burgundy kemur okkur ekkert við. Það væri þá nær að nota franska nafnið Bourgogne sem kemur reyndar fyrir í fréttinni, þó að fréttaskrifari haldi greinilega í fávisku sinni að það nafn sé hluti af nafni stúlkunnar!

Varðandi innihaldið sýnist mér þó að vinningshafi síðasta árs frá franska landsvæðinu Tahiti sé ágætlega sólbrún og skil því ekki hvað verið er að kvarta þó stúlka af evrópskum uppruna vinni í ár. Hvað yrði sagt ef hún hefði líkst íslenskri ljósku?


mbl.is Segja fegurðardrottninguna „hvíta sem mjöll“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Þormóðsson

Vill hér með benda þér á að þessi stúlka frá Tahiti lenti í 2 sæti, en er ekki sigurvegari síðasta árs!

Þorsteinn Þormóðsson, 10.12.2012 kl. 16:42

2 Smámynd: Björn Jónsson

Djöf...... bull er þetta í þér. Við eigum að hætta, eða hefðum aldrei átt að byrja á að endurskíra erlend staðarheiti á Íslensku. Áttu kannski heima í Smoke Creek ???

Björn Jónsson, 10.12.2012 kl. 17:26

3 identicon

Þessi blökkumannahópur er ekki vel að sér í neinu. Stúlkan er svört (reyndar blönduð) og steinaldarfólk eins og múslimar taka ekki þátt í svona kepnum.

Gæti frekar trúað því, að þetta væri múslimskur þristihópur frá Norður- Afríku að skapa glundroða.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 10.12.2012 kl. 17:42

4 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Björn Jónsson 

Mér sýnist að þú hafir eitthvað misskilið það sem ég nefni. Ég vil halda áfram að nefna Chile sínu nafni (og ekki ónefninu Síle), og sömuleiðis Bangladesh (en ekki Bangladess eins og ég sá í dag í Mbl.). Hins vegar er nafnið Búrgund aldagamalt í íslensku. Ef við viljum nota erlend staðarnöfn óbreitt þá eigum við að skrifa Bourgogne, en ekki enska nafnið Burgundy um franskt hérað (en það er "Djöf...... bull").

Sæmundur G. Halldórsson , 10.12.2012 kl. 18:14

5 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Þorsteinn Þormóðsson.

Takk fyrir ábendinguna. Sjálfsagt eiga keppendur af öðrum uppruna en evrópskum erfiðara um vik. Fegurðarmat er enn mjög "evrósentrískt". En þetta getur vel breyst bráðlega án þess að þrýstihópar séu með læti. Þegar Frakkar urðu heimsmeistarar í fótbolta var meirihluti liðsmanna upprunninn utan Evrópu eða ættaður úr minnihlutahópum (eins og vinsælasti Frakkinn á þeim tíma Zinédine Zindane, fæddur í Marseille af alsírskum foreldrum). Söngvarar og skemmtikraftar koma einnig oft úr þessum hópum. Það sem enn vantar í Frakklandi er sýnileiki í fjölmiðlum, stjórnmálum, fræðasamfélaginu og menningarlífi. Það eina sem getur breytt því er aukin menntun. Í umhverfi þar sem hip-hop, gansta-rapp, dílerar og bílaþjófar eru fyrirmyndirnar gæti orðið langt í það. Sem betur fer eru líka til jákvæðari dæmi (eins og kvótar fyrir minnihlutahópa í elítuskólanum Science-Po).

Sæmundur G. Halldórsson , 10.12.2012 kl. 18:26

6 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Jæja, nú er búið að breyta rithætti héraðsins Búrgund í fréttinni. En það sem er komið í staðinn fyrir enska nafnið Burgundy er ekki annað en enskur framburður stafsettur á íslensku (Búrgúndí)! Af hverju í ósköpunum eigum við að nefna frönsk héruð upp á ensku? Hefðbundinn ritháttur er Búrgund (ekkert "í" í endann og aðeins komma á fyrsta u samkvæmt íslenskum framburði). sjá:

 is.wikipedia.org/wiki/Bourgogne

Sæmundur G. Halldórsson , 10.12.2012 kl. 21:52

7 identicon

Hvernig væri að segja Bourgogne ? Svona heitir þetta á frönsku. Við skrifum ekki "La baie des fumées" í staðin fyrir Reykjavík á frönsku. Það er bara "Reykjavik".

Eva franska (IP-tala skráð) 11.12.2012 kl. 13:55

8 identicon

Björn:

Ég kemst ekki hjá því að álíta að þú sért einn að þeim sem setur samansemmerki á milli það að þýða erlend orð yfir í íslensku og þjóðrembing.

Eins og Samy er að segja, ef það er svona andskotans bull að þýða erlend staðarnöfn, af hverju eigum við þá að nota ensku þýðinguna? Af hverju ertu ekki að missa þig yfir því? Helvítis þjóðrembingur í Bretum að vera að þýða nafnið á staðnum.

Allar Evrópuþjóðir hafa þýtt staðarnöfn frá hvor öðrum, til dæmis kalla Spánverjar staðinn "Borgoña". Djöfulsins þjóðrembingur er þetta í þeim.

Samy:
Ég kom sjálfur að fréttinni, eftir að það var búið að breyta nafninu í "Búrgúndí" og verð óneitanlega að viðurkenna að maður fær kjánaklígju af því. Þetta er eins og að fréttin hafi verið skrifuð af Kristján (heiti ég) Ólafsson.

Einar (IP-tala skráð) 11.12.2012 kl. 16:24

9 identicon

(Sami Einar og síðast, með meiri innlegg)

Eva franska (og Björn aftur):
Jú jú. Fólk úti eru ekki að kalla Reykjavík "Smoke Creek" eða "La baie des fumées" en það eru tvær ástæður fyrir því.
Í fyrsta lagi er Ísland ekki beinlínis sagnfræðilega mikilvægt svæði í þeirra augum. Reykjavík er ekki daglegt umræðuefni þarna úti og það má segja að margir vissu ekki einu sinni af landinu fyrr en nýlega, þar sem við vorum býsna einangraðir frá heiminum þar til eftir heimstyrjaldirnar. Ef Ísland hefði verið oftar í umræðu þarna úti, árum áður, væri líklegra að við sæjum skrautlegri útgáfur af staðarnöfnum okkar.
Hitt er svo að það er ekki hefð að beinþýða staðarnöfn yfir í önnur mál. Til dæmis, köllum við þetta hérað ekki "vínrauður" eða eitthvað ámóta. Venjulega er stafsetningin/framburðurinn einungis lítilega breytt til að hún sé þægileg í notkun og aðlöguð málinu.

Ef við tökum svo nafnið Ísland sem dæmi kallar Bretar það Iceland (beinþýðing) og Frakkar L'Islande (framburðaraðlögun). Af hverju kallar þeir það ekki bara Ísland?

Einar (IP-tala skráð) 11.12.2012 kl. 19:41

10 identicon

Ég er alveg sammála þér, Samy. Ég hef sjálfur hvar sem ég get komið því við gagnrýnt afskræminguna á erlendum staðarnöfnum, t.d. orðskrípinu Síle (sic!),  einnig þegar notaðir eru íslenzkir bókstafir eins og æ eða þegar skrifað er v í landnöfnum þar sem ekkert v-hljóð er (t.d. Nikaragva í stað Nicaragua, Úrúgvæ í stað Uruguay, Gvæjana í stað Guayana, Havæ í staðinn fyrir Hawaii eða Tævan í stað Taiwan o.s.frv.). Önnur orðskrípi: Mexíkóskur, Súlú, Kænugarður, Njörvasund, Jórvík o.fl. Og íslenzku máli er enginn greiði gerður með þessum afbökuðu staðarnöfnum

Það skiptir okkur litlu máli þótt Bretar og sumar aðrar þjóðir hafi gert þetta öldum saman, eins og t.d. með Burgundy, Munich, Tuscany, Vienna. Við þurfum ekki að apa eftir. Þessar borgir  heita Bourgogne, München, Toscana; Wien. Það er alltaf betra að nota upprunaleg landa- og staðarnöfn. Augljós undantekning eru hefðbundin íslenzkuð evrópsk landanöfn, sem því miður er ekki auðvelt að breyta. En ég geri mitt bezta.

Pétur (IP-tala skráð) 11.12.2012 kl. 23:50

11 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Sæll Pétur,

 við erum að mestu leyti sammála. Aðaltilefni færslunnar var samt að mér ofbýður hvað (hrá)þýðingar fjölmiðla úr ensku eru klúðurslegar. Þannig er líka algengt að krakkarnir sem eru látnir snara þessu viti ekki að staðarheitin Cologne eða Munich(Bavaria) hafa aldrei verið notuð í íslensku, heldur Köln og München í Bæjaralandi (eða Bayern á þýsku). Það er einföld regla að nota íslensk staðarheiti, þar sem löng hefð er fyrir því, en annars upprunalegt staðarheiti, en ekki enskt, þegar ekki er um enskumælandi land að ræða.

Nöfnin Búrgund (kemur fyrir í hetjukvæðum Eddu og Völsungasögu), sem og Kænugarður, Njörvasund og Jórvík eru eldri en Íslands byggð í norrænu máli. Mér finnst ágætt að nota þau þegar menn vilja ná sérstökum stílbrigðum en annars leyfum við okkur nú hversdags að segja Bergen (fyrir Björgvin), London (fyrir Lundúni), Kiev (fyrir Kænugarð) o.s.frv. En þessi nýtilkomna manía að vilja troða séríslenskum bókstöfum inn í erlend staðarheiti, sem er löng hefð fyrir að skrifa samkvæmt frummáli, fer ótrúlega í taugarnar á mér og fleirum.

Ástæðan fyrir því að þessir þjóðrembungar eru að rembast við að skrifa Síle í stað Chile er kannski sú að ch kemur hvergi fyrir í íslenskum orðum. En það gerir -e- í enda orðs ekki heldur! Nema reyndar í gömlu góðu dönskuslettunni að ske, sem kynslóðir skólakennara hafa reynt að útrýma. (Í dag skrifa svo allir "kannski", áður kannske). Rökrétt væri því að hinir sömu skrifuðu Síli, eins og í síli, enda er landið eins og hornsíli í laginu! Mexíkói, -kóskur og Marokkói,-kóskur er ótrúlega kauðskt og asnalegt. Hvað var að orðunum Mexíkani og mexíkanskur? Vill Mogginn útrýma orðinu Kani (Ameríkani) í lotningu sinni fyrir öllu sem úr þeirri átt kemur?

Þegar rithætti landanna Tailand og Taiwan var breytt í Tæland og Tævan(! ) var verið að bjóða upp á aulabrandara um tælandi tæfur. Ég sé ekki hvað íslenskt mál græðir á þessum asnaskap. Ritmál sem menn taka alvarlega eru íhaldsöm í eðli sínu. Það er verið að skemma fyrir þeim sem hafa gott vald á málinu með því að vera sífellt að krukka í hefðbundinn rithátt með þessum hætti og hinum slakari hjálpar þetta ekki heldur.

Einar kemur með góðan punkt: við höfum íslensk staðarheiti fyrir þá erlenda staði sem við erum eða vorum einhvern tímann nákunnug og oft var fjallað um. Það er því eðlilegt að tala um Kaupmannahöfn og Óðinsvé (upphaflegu nöfnin í norrænu), sem og Neðra-Saxland (en ekki Saxóníu eins og ég hef lesið, Sachsen hefði þá verið nær). Sunnar eru svo Feneyjar og Sikiley sem er bara gaman af.

Einmitt þess vegna ætti að láta Chilebúa og Mexíkana í friði. Það var enginn að panta íslenskun á þeim.

Sæmundur G. Halldórsson , 12.12.2012 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband