Tapað-fundið: hvað varð um viðtengingarháttinn?

Ég hef búið hálfa ævina erlendis og ég get staðfest að það myndi engum fréttamanni eða blaðamanni á fjölmiðli sem vill láta taka sig alvarlega líðast að fara með tungumálið eins og hér er gert (Frakkland, Þýskaland, Danmörk). Hins vegar eiga Íslendingar líklega heimsmet í því að halda mærðarfullar sunnudagsræður um "Land, þjóð og tungu". Ég kom heim fyrir ári síðan eftir langa dvöl erlendis og tók strax eftir því, mér til mikillar furðu, að viðtengingarháttur er horfinn hjá flestum. Þetta sést alla daga í öllum dagblöðum, það heyrist í útvarpi og sjónvarpi og úr ræðustól alþingis. Missti ég af einhverju? Var viðtengingarháttur bannaður með lögum eins og zetan þegar bóndinn úr Mjóafirði settist í ráðherrastól?

Í stað þess að segja: N.N. segir (fullyrðir, telur) að X sé slæmt.... ;

N.N. sagði (fullyrti, taldi) að X væri slæmt.... ;

segja og skrifa menn: N.N. segir (fullyrðir, telur) að X er slæmt....!!!;

eða:  N.N. sagði (fullyrti, taldi) að X var slæmt.... !!!.

 Þannig er þetta í dönsku en þetta væri óhugsandi í frönsku eða þýsku. Blaðamaður sem léti annað eins út úr sér gæti tekið pokann sinn samdægurs.

Dæmin eru svo mýmörg að ég nenni ekki að tína til sérstök tilfelli, þetta stendur í flestum blaðagreinum. Reglur um notkun viðtengingarháttar standa þó í öllum kennslubókum, hvort sem er í móðurmálskennslu eða íslensku fyrir útlendinga. En nú er eins og öllum sé algerlega ókunnugt um að bein ræða sé í framsöguhætti en óbein ræða standi í viðtengingarhætti. Þetta virðist ekki vefjast fyrir öðrum þjóðum (Frökkum og Þjóðverjum t.d.) sem þó tala minna um málrækt og fornar hefðir.

En mest er ég hissa á því að enginn virðist kippa sér upp við þetta. 

Hvað finnst ykkur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband