Færsluflokkur: Málfar
13.10.2016 | 17:24
Skræfur, kisulórur eða píkur?
Erlendar fréttir í íslenskum fjölmiðlum eru eins og allir vita lítið annað en hráþýðingar úr ensku á fréttaskeytum frá Reuters eða AP. Því miður koma ekki margir snjallir þýðendur að þessu starfi, þó ekki megi alhæfa. Hérna hefur sá sem snaraði skeytinu greinilega ekki náð brandaranum. Sergej Lavrov (Sergej auðvitað, ekki Sergey, við erum ekki enskumælandi)talar ensku eins og innfæddur. Hann lætur ekkert óviljandi út úr sér og enn síður eitthvað óviðurkvæmilegt. Hann er hér að nota orðaleik. Pussy (ft. pussies) þýðir í fyrsta lagi "kisa". Af því er t.d. dregið hugtakið "pussy-footing" sem þýðir "að fara eins og köttur í kringum heitan graut", þ.e. að haga sér eins og skræfa, að hika. Og svo er slangurmerkingin: píka. Þessa tvíræðni kalla Ameríkanar "double entendre" á einhverri undarlegri frönsku. Þess vegna gat fréttaritarinn snjalli Christiane Annanpour leyft sér að hlæja hjartanlega þótt hún sé kona. Sergej Lavrov sagði eftirfarandi á ensku: There are so many pussies around the presidential campaign on both sides that I prefer not to comment,.
Það eru svo margar píkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Málfar | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.11.2015 | 21:56
Frá Prague til Bavaria???
Eins og tíðkast í öllum öðrum mér þekktum tungumálum aðlagar íslenska erlend staðarheiti að eigin málkerfi. Við eigum þannig meðal annars íslensk orð fyrir ofangreinda staði: Prag og Bæjaraland! Það væri þó illskárra að skrifa Bayern en að hanga í enskunni og skrifa "Bavaria". Á íslensku er franska héraðið Burgundy heldur ekki til. Það heitir á frönsku Bourgogne og við höfum alltaf kallað það Búrgundahérað. Sérstaklega er neyðarlegt að lesa greinar eftir menn sem þykjast vera sérstakir kunnáttumenn um vín skrifa um Búrgúndývín. Enska er ágæt til síns brúks, en þegar menn eru að semja texta á íslensku eiga staðarnöfn að vera á sama máli.
Man það að vera á flótta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Málfar | Breytt 2.11.2015 kl. 07:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2009 | 00:33
Tapað-fundið: hvað varð um viðtengingarháttinn?
Í stað þess að segja: N.N. segir (fullyrðir, telur) að X sé slæmt.... ;
N.N. sagði (fullyrti, taldi) að X væri slæmt.... ;
segja og skrifa menn: N.N. segir (fullyrðir, telur) að X er slæmt....!!!;
eða: N.N. sagði (fullyrti, taldi) að X var slæmt.... !!!.
Þannig er þetta í dönsku en þetta væri óhugsandi í frönsku eða þýsku. Blaðamaður sem léti annað eins út úr sér gæti tekið pokann sinn samdægurs.
Dæmin eru svo mýmörg að ég nenni ekki að tína til sérstök tilfelli, þetta stendur í flestum blaðagreinum. Reglur um notkun viðtengingarháttar standa þó í öllum kennslubókum, hvort sem er í móðurmálskennslu eða íslensku fyrir útlendinga. En nú er eins og öllum sé algerlega ókunnugt um að bein ræða sé í framsöguhætti en óbein ræða standi í viðtengingarhætti. Þetta virðist ekki vefjast fyrir öðrum þjóðum (Frökkum og Þjóðverjum t.d.) sem þó tala minna um málrækt og fornar hefðir.
En mest er ég hissa á því að enginn virðist kippa sér upp við þetta.
Hvað finnst ykkur?
Málfar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)