22.5.2011 | 12:56
Cui bono? Hver græðir á ákærunni?
DSK krefst ekki sýknu eins og mbl.is heldur fram. Hann heldur fram sakleysi sínu, sem er allt annar hlutur, (getur ekkjan í Eyjum ekki gefið blaðamönnum Moggans orðabók?).
Áður hefur komið fram í bloggi að aktívistar UMP (flokks Sarkozys forseta), sem höfðu staðið fyrir ófrægingarherferð gegn Strauss-Kahn í nokkrar vikur, voru farnir að twitta um handtökuna áður en hún átti sér stað, eða a.m.k.löngu áður en nokkrir fjölmiðlar í New York vissu um málið! Sofitel hótelið tilheyrir Accor keðjunni frönsku, sem er í eign náins vinar Sarkozys. Stjórnmálamenn í UMP ganga þar út og inn. Frá byrjun hafa komið mótsagnakenndar upplýsingar frá lögreglu og saksóknara. Þernan átti ekki að skilja frönsku og var sögð frá Ghana. Í raun er hún frá Guineu, fyrrverand i franskri nýlendu í Vestur- Afríku og talar mun betur frönsku en ensku. Sagt var að hún hefði komið inn í svítuna klukkan 13.00 til að gera hreint og að DSK hefði þá ráðist á hana. Í ljós kom að hann tékkaði út og greiddi með eigin kreditkorti klukkan 12.28 og var sestur að snæðingi með dóttur sinni á veitingastað nokkuð langt frá kl. 12.45. Þá færir lögreglan tíma árásarinnar einfaldlega aftur til klukkan 12.00! Sagt var að í myndavélum hefði þernan sést koma í uppnámi út úr svítunni og DSK skömmu seinna í miklum flýti. Svo kemur í ljós að á hæðunum eru engar myndavélar (aðeins í lobbýi á jarðhæð)! Saksóknari segir að DSK hafi yfirgefið hótelið í miklum flýti án þess að koma við í móttöku. En hótelið staðfestir að hann hafi greitt með eigin korti kl. 12.28. Auk þess staðfesti kona sem var samferða honum í lyftunni niður 28 hæðir (tekur víst 3 mínútur) að hann hefði verið sallarólegur og elskulegur og hefði haldið áfram að spjalla við sig meðan hann borgaði (hún bar vitni um þetta í frétta tíma franska sjónvarpsins France 2). Svítan var sögð kosta 3000$, 1500$, 575$ m.m. Hótelið og AGS staðfesta að DSK hafi greitt úr eigin vasa 525$ (sem er líka dýrt, en ekkert óvenjulegt á Manhattan. Hann fékk svo up-grade). Hann var sagður hafa ætlað að flýja í Air France vél á fyrsta farrými (fyrsta farrými er ekki til í þessari gerð véla!; hann sat í business class). Saksóknari segir hann hafa hlaupið í ofboði út úr húsinu til að kalla á leigubíl. Hann var að verða seinn til að hitta dóttur sína, sem býr í NY, og ætlaði væntanlega heldur ekki að missa af fluginu til Parísar. Flugið hafði verið bókað vikum fyrr, enda átti hann að hitta Angelu Merkel í Frankfurt daginn eftir (sunnudag) og 27 fjármálaráðherra ESB ríkjanna í Brussel á mánudag. Saksóknari lætur eins og hann viti þetta ekki og að DSK hafi verið á flótta. Fyrir utan flýtinn er það sagt sanna sekt hans að hann hafi gleymt farsíma á herberginu. Hann hringdi frá flugvellinum í hótelið til að grennslast fyrir um farsíma sem hann hélt að hann hefði gleymt (síminn var víst í tösku hans) og sagði hótelstarfsmönnum hvar hann væri og í hvaða flug hann væri bókaður (NYPD stóð þá yfir hótelstarfsmönnum og sagði þeim hvað þeir ættu að segja). Er það líkt manni á flótta að borða fyrst hádegismat í ró og næði með dóttur sinni rétt eftir að hafa nauðgað konu og hringja svo í hótelið og segja hvar hann sé staddur? Eru allir sem eru að flýta sér á Manhattan og gleyma farsíma á hótelum nauðgarar eða raðmorðingjar? Í ljós hefur komið að þernan var ekki ein. Hún kom að dyrum svítunnar opnum. Karlkyns starfsmaður var að taka morgunverðarbakka og sagði henni að enginn væri inni. Starfsfólk gengur greinilega einn og út á þessu "lúxus"hóteli án þess að athuga hvort gestir eru inni eða úti. DSK hlýtur að hafa falið föt sín og skó, ferðatösku og tölvu inni á baði! Svo er það talið hneyksli að hann komi nakinn út úr sturtunni, en ekki í jakkafötum með bindi.
Þetta er aðeins hluti af ruglinu sem manni er ætlað að trúa. Saksóknari og dómari eru kosnir af almenningi. Vinsældir ráða en ekki hæfni. Saksóknari er nýr og þarf að sanna sig. Lögreglustjóri þarf að sýna árangur. Þess vegna er maður sem ein manneskja hefur ákært dreginn járnaður eins og hundur í bandi fyrir ljósmyndara áður en rannsókn hefst, hvað þá réttarhöld! Hvernig á að treysta slíku réttarkerfi? Enginn afsakar DSK ef ásakanir reynast sannar. En þeir mættu vanda sig meira.
„Manneskja ákærð fyrir að beita ofbeldi“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.