7.2.2013 | 22:56
Hvaða lýðræðishalli?
Tómas Ingi heldur að ekki hafi verið gengið úr skugga um hvort Íslendingar vildu ganga í ESB þegar aðildarumsókn var lögð fram. Hver skoðanakönnunin eftir aðra hafði verið gerð sem sýndi áhuga meirihlutans á aðild. Valdastéttin (Sjallar og Framsókn) vildi ekkert af því vita og gaf fólki ALDREI tækifæri til að segja hug sinn í þessu efni. En 2008 breyttist þetta. Bjarni Ben. og Illugi Gunnarsson vildu evru og leggja inn aðildarumsókn. Halldór Ásgrímsson og Jón Sigurðsson í Framsókn höfðu lengi verið sama sinnis. Í VG voru og eru mjög margir fylgjandi aðild. Nýju framboðin vildu ganga í ESB. Í landsfundarsamþykktum flokkanna stóð í flestum tilvikum að sækja ætti um. Í kosningum 2009 fengu flokkar meirihluta sem vildu leggja inn umsókn. Vilji almennings á þessum tíma var að ganga til samninga við ESB. Meirihluti Alþingis samþykkti umsókn. Hvað er ólýðræðislegt við þetta?
Samstarfsflokkur Samfylkingar VG var og er klofinn í málinu. Í stjórnarsáttmála var gerð málamiðlun, eins og allar samsteypustjórnir þurfa að gera, þar sem samþykkt er að leggja inn umsókn og semja um aðild EN AÐ LÁTA KJÓSENDUR TAKA ÁKVÖRÐUN UM INNGÖNGU EÐA EKKI ÞEGAR SAMNINGUR LIGGUR FYRIR. Þetta hafa allar aðrar þjóðir sem gengið hafa í ESB (eða samið og hafnað síðan samningi eins og Noregur og að vissu leyti líka Sviss) gert svona. Lítur Tómas Ingi svo á að öll Evrópulönd séu fasísk?
Maður veit svo ekki hvort maður á að hlæja eða gráta þegar Sjálfstæðismenn af öllum mönnum þykjast vera boðberar beins lýðræðis. Þeir sem einmitt hafa þjösnað í gegn Nato aðild og herstöðvarsamningi án þjóðaratkvæðis og stuðningsyfirlýsingu við innrás BNA í Írak án þess einu sinni að þingið væri spurt álits! Ár eftir ár sýndu allar skoðanakannanir að meirihluti Íslendinga var jákvæður gagnvart ESB aðild og seinna einnig gagnvart upptöku evru. En Davíð Oddsson endurtók bara eins og rispuð plata að aðild væri ekki á dagskrá. Þá stóð aldrei til að spyrja einn eða neinn. Alþingi samþykkti þessa umsókn og því fylgdi að af henni verður ekki nema þjóðin samþykki hana í þjóðaratkvæði. Þetta er raunverulegt lýðræði, ekki þjösnagangur Sjálfstæðisflokksins. Sama hvað nei-liðar garga.
Vettvangur lýðræðisins í Evrópu er þjóðþing, samfélag og fjölmiðlar aðildaríkjanna fyrst og fremst. Engu landi er hleypt inn í ESB nema að geta sannað að það virði grundvallarreglur lýðræðis og réttarríkis. Evrópuþingið er kjörið beinni kosningu og fær sífellt meiri völd. Engin alþjóðastofnun er nálægt því eins lýðræðisleg og ESB.
Ef aðildarríki fellir einhverja tillögu í þjóðaratkvæðagreiðslu (Danmörk eða Írland t.d.) er komið til móts við það land með einhverju móti. Danir felldu Maastricht-sáttmálann 1992 og í Edinborg ´93 (á næsta toppfundi) fengu þeir fjórar undantekningar (frá evrunni, dómsmálum, utanríkismálum o.fl.) sem gilda enn. Síðan var kosið aftur í DK og nýr samningur gekk í gildi með varanlegum undantekningum fyrir Danmörku. Sama hefur verið á Írlandi. Ef kosið er aftur er verið að kjósa um breyttan texta (þeir fengu tryggingu fyrir áframhaldandi hlutleysi Írlands og að þeir þyrftu ekki að leyfa fóstureyðingar o.fl.). Menn gaspra út í loftið um lýðræðishalla ESB án þess að nokkur reyni að sýna fram á dæmi þess. Evrópuþingið er kosið beinni kosningu og ræður núna miklu eða mestu í flestum málaflokkum. Endanleg ákvörðun er ekki tekin fyrr en Ráðherraráðið (með fagráðherrum hvers ríkis) eða Leiðtogaráðið (þar sitja þjóðhöfðingja aðildarríkja) hefur samþykkt málið. Allir sem þar sitja eru þjóðkjörnir. Í framkvæmdastjórninni sem leggur fram tillögur að lögum sitja embættismenn, teknókratar. Þeir eru skipaðir en ekki kosnir, en þeir verða að mæta fyrir Evrópuþingið sem getur hafnað þeim. Það hefur gerst nokkrum sinnum og öll framkvæmdastjórnin hefur þurft að víkja vegna vantrausts í þinginu. Svo það sem margir halda fram um lýðræðishalla í Sambandinu er beinlínis rangt. Hvaða embættismenn á Íslandi eru kosnir eða þurfa að standa kjósendum reikningsskil (aðrir en forsetinn) ?
Lýðræðishalli ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.