9.12.2009 | 01:55
Evran og vandræði Grikklands, Írlands o.fl..
Samkvæmt nýjustu fréttum á Grikkland, sem fékk að taka upp evru árið 2001, í miklum efnahagserfiðleikum. Þetta gefur hatursmönnum Evrópusambandsins tilefni til að hamra á þeirri sannfæringu sinna að evran sé til bölvunar. Þeir erfiðleikar sem ýmis evrulönd berjast núna við sanna þó einmitt að hagstjórn í Evrópu er ekki sameiginleg. ESB er langt frá því að vera ríki með sameiginlega stefnu í öllum málum. Reyndar er það rétt að í sumum stofnríkjum sambandsins dreymdi marga um að sambandið yrði að endingu sambandsríki. Núna er ESB nær því að vera ríkjasamband (sjálfstæðra og fullvalda ríkja), þó að það hafi líka marga eiginleika sambandsríkis. Valéry Giscard d'Estaing, fyrrum Frakklandsforseti og helsti höfundur að "Stjórnarskrársáttmála fyrir Evrópu ", (sem var felldur eins og allir vita), kallaði sambandið einhvern tíma "opni, á ensku:UPO, þ.e.a.s. "objet politique non identifié" eða á ensku: "an Unidentified Political Object". Sbr. UFO: an Unidentified Flying Object.
Það getur vel verið að það leiði til hörmunga í einhverjum löndum að hafa tekið upp evruna en látið hjá líða að taka upp skynsamlega hagstjórn. Annað hvort verða viðkomandi ríki að taka sér tak eða þetta leiðir til framþróunar í sambandinu. Öll framþróun í Evrópusamstarfi er þannig til komin. Fullvalda ríki taka ekki í mál að deila fullveldi sínu með öðrum nema þau sjái sér hag í því, helst ef þau eiga ekki völ á öðru. Aðildarríkin hafa ekki verið hersetin af óvinaher, þau hafa kosið að koma á nánu samstarfi af því að þau sáu sér hag í því. Ef þau meta stöðuna öðru vísi geta þau alltaf dregið sig út úr samstarfinu aftur. Þetta hefur alltaf verið svo en með Lissabon-sáttmálanum sem er nýgenginn í gildi (1. desember) er það beinlínis tekið fram í sérstöku ákvæði að ríki geti gengið úr sambandinu ef þeim sýnist svo.
Grikklandi var smyglað inn á evrusvæðið með upplognum hagtölum (e.: creative accounting). Þetta kom í ljós við stjórnarskipti, þegar nýkjörin ríkisstjórn í Aþenu þurfti að hreinsa til eftir fyrirrennara sína, (minnir þetta á eitthvað?). Öll þau lönd sem nú hafa tekið upp evruna hafa þurft að leggja geysimikið á sig við að taka til í hagstjórn áður en þeim var leyft að taka upp þennan sameiginlega gjaldmiðil. Þetta gildir líka um lönd eins og Frakkland. Belgíu og Ítalíu var hleypt inn, þrátt fyrir að skuldir ríkisins færu vel yfir 100% af landsframleiðslu, (hámark samkvæmt Maastricht eru 60%). Löndin í ESB eru jafn mismunandi og þau eru mörg, en ef þau ætla að innleiða evruna verða þau að taka sig á ef ekki á illa að fara. Þetta gildir auðvitað líka um Ísland ef landið stefnir að upptöku evru. Það hefur enginn Evrópusinni haldið öðru fram.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.