17.10.2020 | 13:13
Má kenna um tjáningarfrelsi í Evrópu?
Í fréttir íslenskra fjölmiðla af þessum hryllilega glæp ungs íslamista frá Tjéténíu sem Frakkland hafði tekið upp á sína arma vantar helstu atriðin! Sagnfræðikennarinn hafði ekki tekið það upp hjá sjálfum sér að ögra nemendum sínum með því að sýna þeim skopmynd af Múhameð! Hann var að kenna samkvæmt námsskrá fyrir 7. bekk (13 ára nemendur). Kennsluefnið var stjórnarskrá Frakklands og sérstaklega tjáningarfrelsið og af hverju það skipti máli! Umræðan fjallaði líka um það hvað gerist ef þetta frelsi rekst á við aðrar tegundir frelsis eins og trúfrelsið. Þessar vikurnar fara fram réttarhöld yfir fjórtán manns sem eru taldir hafa hjálpað Kouachi bræðrum eða vini þeirra Coulibaly í janúar 2015, þegar þeir myrtu næstum alla ritstjórn Charlie Hebdo og fjölda annarra, vegna þess að blaðið hafði birt skopmyndir Jylland-Posten af Spámanninum. Kennarinn var sem sagt einfaldlega að sinna sínu starfi og notaði vísun í mikilvægan atburð í nútímanum og sem mun verða fjallað um í öllum sögubókum. Eins og venjulega láta íslenskir fjölmiðlar sér nægja að krafsa í yfirborðið og hráþýða fréttaskeyti án nokkurs skilnings á því sem um ræðir.
Það skiptir líka máli að í fyrra hótaði Ísis/Daesh því að fremja hryðjuverk gegn frönskum kennurum þar sem þeir væru allir í þjónustu hins "vantrúaða" franska lýðveldis. Í glanstímariti hryðjuverkasamtakanna á netinu var því lofað að franskir kennarar yrðu afhöfðaðir. Núna, þegar réttað er yfir stuðningsmönnum morðingja Charlie, bárust nýjar morðhótanir Isis og áskoranir til fylgismanna þess að láta nú til skarar skríða.
Um er að ræða stríðsyfirlýsingu gegn því sem er kjarninn í franskri menningu og samfélagi: skóla lýðveldisins, þar sem nemendum er kennd gagnrýnin hugsun og grunngildi lýðveldisins: frelsi (tjáningarfrelsi í 7. bekk), jafnrétti (kennt í 8. bekk) og bræðralag (um lýðræðið er kennt í 9. bekk!).
Það er sorglegt að við skulum ekki eiga betri fjölmiðla.
Ættingjar ódæðismannsins handteknir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.3.2018 | 14:23
Blaðabörn! Evrópuráðið er ekki ESB-stofnun! Endurtekið efni.
Það er með ólíkindum að íslenskir blaðamenn virðast gersamlega ófærir um að gera greinarmun á æðstu stofnunum Evrópusambandsins og óskyldri stofnun, Evrópuráðinu. Ísland er stofnaðili Evrópuráðsins í Strasborg (e. Council of Europe). Sú stofnun kemur ESB ekkert við. Æðstu stofnanir ESB eru síðan Leiðtogaráðið (e. European Council), þar sem þjóðhöfðingjar aðildarríkjanna koma saman tvisvar á ári eða þar um bil, þess á milli fer Ráðherraráðið (Council of Ministers) með aðkallandi störf.
Leiðtogaráðið og ráðherraráðið eru fulltrúar aðildarríkjanna og fara með hið eiginlega vald. Hinar tvær aðalstofnanirnar eru Framkvæmdastjórin og Þingið sem eru alríkisstofnanir (e. federal).
Donald Tusk er forseti Leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Hann er ekki á launaskrá Evrópuráðsins, enda kemur hann hvergi að starfi þess apparats.
Tyrkir stefna enn á aðild að ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.1.2018 | 16:41
Akureyri vill líka vera mem!
Það var augljóst að Leikfélag Akureyrar gat ekki staðið stóru leikhúsunum fyrir sunnan og Listaháskólanum að baki. Þau eru búin að losa sig við helstu karlleikara af yngri kynslóðinni og skólinn við kennara. Allt vegna ásakana án kæru. Menn eru smánaðir, reknir og bannfærðir án þess að þeir virðist fá andmælarétt eða að óvilhallur aðili (dómstóll t. d.) skeri úr um málin.
Ég legg til að næsta jólaleikrit Borgarleikhússins verði Nornirnar í Salem eftir Arthur Miller! Þjóðleikhúsið og L. A. geta valið á milli t.d. The Killing of a Mocking Bird, einhvers af ótal verkum um McCarthy tímann eða Jagten. Best væri að hafa konur í öllum hlutverkum. Það verður trúlega sjálfgert ef svo fer sem horfir!
PS: Eins mikilvægt og það er að konur geti verið öruggar á sínum vinnustað um að vera ekki undir óeðlilegum þrýstingi eða að verða fyrir áreiti sem þær geta illa varist, þá hljóta að vera til betri leiðir til að bregðast við svona málum!
Uppsögnin tengd #metoo-byltingunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2017 | 13:54
Blaðabörn: Evrópuráðið er ekki ESB-stofnun!
Þó að menn hafi þúsund sinnum leiðrétt endalausar rangfærslur í íslenskum fjölmiðlum halda ómenntaðir krakkar sem eru látnir snara fréttaskeytum áfram að endurtaka sömu villurnar, frétt eftir frétt, ár eftir ár. Ísland er stofnaðili að Evrópuráðinu í Strasborg. Á ensku: Council of Europe. Sú stofnun kemur ESB ekkert við! Æðsta stofnun Evrópusambandsins heitir á íslensku Leiðtogaráðið eða Leiðtogaráð Evrópusambandsins. Þar koma saman æðstu þjóðhöfðingjar ESB-ríkja. Því miður var þeirri stofnun valið nafn á frönsku og ensku sem líkist um of nafni eldri stofnunarinnar, þ.e. The European Council.
Trúlega er það grunnskilyrði fyrir ráðningu sem blaðamaður á Morgunblaðinu að hafa ekki grænan grun um uppbyggingu evrópskra stofnana. En ekki eykur þetta traust á gæði íslenskrar fréttamennsku!
ESB miðli málum í Katalóníudeilunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.9.2017 | 07:13
Múhammeð vinsælasta drengjanafn Bretlands samkvæmt Independent
Sá eða sú sem snaraði frétt The Independent (og lét sem betur fer hlekkinn fylgja með)er því miður ekki alveg nógu fær í ensku. Ef farið er í upprunalega frétt kemur í ljós að The Independent er einfaldlega að segja að arabíska nafnið Múhameð sé vinsælasta drengjanafn í Bretlandi! Þ.e. ef öll ritform nafnsins eru talin sem eitt. Það er mjög eðlilegt að telja Mohammad, Mohammed, Muhammed, Muhammad o.s.frv. vera sama nafnið, enda eru þau öll borin eins fram! Þeir sem til þekkja vita að sérhljóðar eru ekki skrifaðir í arabísku og þannig verða hinir ýmsu rithættir til, þegar umrita á arabísk orð eða nöfn á öðrum tungumálum.
Þetta eru ekki ný tíðindi. Síðustu ár hefur komið í ljós að langvinsælasta nafn sem nýfæddum sveinbörnum er gefið í evrópskum stórborgum allt frá Osló til Rotterdam er einmitt Múhammeð í hinum ýmsu myndum. Af þessu má síðan draga vissar ályktanir um nýja íbúasamsetningu í álfunni og kannski líka um aðlögunarvilja hinna nýju Evrópubúa.
Muhammad vinsælla en William | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.4.2017 | 21:05
Eigið þið ekki rifna íslenska fána eða bandaríska? Hve djúpt getur Mogginn sokkið?
Hvers konar fréttamennska er það að geta ekki skrifað fimm línur um Evrópu án þess að drita yfir samstarf Evrópulanda með háðsglósum eða hatursfullum myndbirtingum eins og hérna?
Morgunblaðið hefði getað orðið virðingarvert stórblað. Einu sinni var þar að finna metnaðarfulla menningarumfjöllun. Lesbókin var eitt mikilvægasta menningartímarit landsins. Síðan tóku við menn sem fannst mikilvægara að gefa út sérblöð um sjávarútveg, bílasölur og fasteignir. Síðustu árin hefur Mogginn ekki verið annað en aumkunarverður áróðurssnepill. Honum hrakar frekar en hitt. Í Danmörku eru til virðingarverð stórblöð sem styðja íhaldsmenn: Jyllandsposten og Berlingske. Í Þýskalandi Frankfurter Allgemeine Zeitung og Die Welt. Í Noregi: Aftenposten. Í Svíþjóð: Svenska Dagbladet og Göteborgs-Posten. Á Íslandi: Ekkert.
Fjölmiðill sem vill láta taka sig alvarlega hefur eina grjótharða reglu: Á milli frétta og skoðanagreina skal vera járnþil! Morgunblaðinu er gjörsamlega ókunnugt um þessa reglu. Allar "fréttir" og framsetning þeirra í orðum og myndbirtingum eru litaðar af pólitískri afstöðu ritstjórnar. Þannig dæmir þessi fjölmiðill sig úr leik.
ESB ekki á dagskrá næstu árin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 18.4.2017 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ástæða þessa er einföld og frekar sorgleg. Tyrkir búsettir í Evrópulöndum komu sem gestaverkamenn (Gastarbeiter)úr fátækustu og vanþróuðstu héruðum Tyrklands. Í einmitt þeim héruðum var stuðningur mestur við einræðistilburði Erdogans. Upplýst fólk býr í stórborgunum og við vestur- og suðurströndina. Þar kaus fólk gegn frumvarpinu. Sorglegt er að innflytjendur til Vestur-Evrópu hafi ekkert lært af opnum, lýðræðislegum þjóðfélögum sem tóku á móti þeim. Þeir höfðu ekki þann menningarlega bakgrunn sem þurfti. Menntafólk aðlagast alls staðar að nýjum aðstæðum. Ólæsir þorpsbúar sitja fastir í fornum hefðum og verða afturhaldssamari í útlegðinni en ef þeir hefðu verið áfram heima! Tyrkneskar verkamannafjölskyldur í Þýskalandi góna á tyrkneskt gervihnattasjónvarp og hlýða blint því sem predikað er í moskunum (sem tyrkneska ríkisstjórnin stjórnar). Aðlögun að evrópsku samfélagi er lítil sem engin.
Þeir úr þessum hópi sem brjótast til mennta og gerast gagnrýnir á feðraveldi þorpsbúanna og afturhald íslams mega búast við grófum persónuárásum frá sínu gamla samfélagi en líka frá evrópskum vinstrisinnum og fjölmenningarsinnum sem rugla allri gagnrýni á íslam saman við rasisma. Það allra sorglegasta er einmitt þetta: Að Evrópubúar sem segjast berjast fyrir framförum, friðsamlegri sambúð við fólk alls staðar að auk kvenréttinda og annarra mannréttinda skuli sjaldnast sýna samstöðu með þeim sem mest þyrftu á því að halda: Þeim ungu konum og mönnum sem vilja einfaldlega njóta þess frelsis sem vestrænt lýðræði býður og eru að brjótast undan blýþungu fargi hefðanna. Þau eiga jafnvel á hættu að vera myrt af eigin fjölskyldu til að bjarga einhverju sem í fornaldarmenningu er kallað fjölskylduheiður! En ímömum og öfgapredikurum er hampað í fjölmiðlum Evrópu, ekki þeim sem vilja einfaldlega aðlagast og þyrfti að styðja.
Það væri rökrétt að þeir brottfluttu Tyrkir, sem njóta allra kosta lýðræðis og réttarríkis í Evrópu, en kusu einræði yfir landsmenn sína í Tyrklandi, pakki nú saman föggur sínar og flytji heim í kalífatið. En ég er smeykur um að efnahagsleg velsæld haldi í þetta fólk, sem hefur ekkert skilið, þrátt fyrir áratugadvöl í lýðræðisríkjum.
Meirihluti Tyrkja í Evrópu sagði já | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2017 | 15:47
En hvað með fordóma íslamista gagnvart okkur?
Varðandi þessa grein þarf að athuga að íslenskir fjölmiðlamenn leita yfirleitt eingöngu til heimilda á ensku. Ameríkanar og Englendingar hafa aldrei haft nokkurn skilning á frönsku samfélagsmódeli sem leggur höfuðáherslu á trúarlegt hlutleysi ríkisins (la laïcité). Franskir lýðveldissinnar (þ.e. þeir sem leggja áherslu á það sem á vannst í byltingunni) vilja jafnan rétt fyrir alla "borgara lýðveldisins" (les Citoyens de la République). Þess vegna þarf að koma í veg fyrir að "undirhópar" (communautés) sem byggja á uppruna geri sig breiða á kostnað hins lýðræðislega nútímasamfélags. "Le communautarisme" er þess vegna höfuðóvinur lýðræðisafla. Bandaríkin (sem sértrúarhópar stofnuðu) og konungsríki eins og Bretland og Belgía fylgja þveröfugri hugmyndafræði. Fréttamenn frá þessum löndum rangtúlka þess vegna kerfisbundið alla viðleitni Frakka til að draga úr kúgun og mismunun hjá sér (með búrkubanni t.d.).
Nú er farið að bera á þessum viðhorfum innan Frakklands líka. Þar kemur þrennt til: menningaráhrif frá enskumælandi löndum (aðallega Ameríku), áhrif íslamistahreyfinga (múslimar í landinu eru 5-8 milljónir og últra-vinstrið sem finnst allt ómögulegt sem ríkjandi stjórnvöld gera á hverjum tíma og sem geta eingöngu séð múslima sem fórnarlömb.
Í þessu ritgerðarsafni sem hér er til umræðu er talað um frelsi til að bera búrku eða mínípils! Í úthverfum franskra stórborga (og vafalaust er ástandið svipað t.d. í Belgíu og Bretlandi) eru allir íbúar undir ströngu félagslegu eftirliti. Eftirlitsstofnunin er samansett af ímömum (oft salafistum í leynilegum kjallaraholum), dópsölum og unglingsstrákagengjum. Hugmyndafræði íslamista síast niður til strákanna í einhverju perverteruðu formi. Þeir síðastnefndu stjórna með harðri hendi klæðaburði systra sinna og allra stúlkna í hverfinu (jafnvel kvenna sem ekki eru múslimar!). Þær ganga þá um í híjab eða í ólögulegum jogginggöllum sem fela kvenleg form. Ef ekki eru þær úthrópaðar sem hórur.
Ég veit um unglingsstúlkur úr þessum hverfum sem ganga í ljótum göllum í hverfinu. Um helgar taka þær RER lestina inn í París, skipta um föt á leiðinni og koma þangað sem stórglæsilegar Parísardömur! Þetta er frelsi sem þarf að berjast fyrir.
Ekki aðeins imamar, feður og eiginmenn neyða ákveðnum klæðnaði upp á múslimskar konur. Bræður líka, jafnvel yngri bræður. Ég las í frönsku blaði frásögn kennslukonu í úthverfi Parísar. Móðir nemanda kom til hennar, ekkja frá Marokkó. Hún þrælaði 15 tíma á dag sem skúringakona. Núna vildi 12 ára (!) sonur hennar neyða hana til að ganga með slæðu og hijab! Í staðinn fyrir að löðrunga strákhvolpinn leitaði hún ráðvillt til annars "átoritets" en sonar síns!
Það sem stendur upp úr eftir þennan lestur er að þessir höfundar eru alls ekki að berjast fyrir því að öðlast fullan þátt í nútímasamfélagi sem borgarar með jöfn réttindi. Þær eru að krefjast sérréttinda eða -reglna sem byggjast á trúarkreddum og í mörgum tilvikum á afturhaldssömum hefðum ættbálkasamfélaga! Að kalla þessa aktívista framfarasinna eða baráttukonur fyrir aukin réttindi er öfugmæli. Það sem hér stendur um fimm ára stjórn sósíalista (sem hafi verið versti tími fyrir múslimakonur) er út í hött. Á þessum tíma hafa múslimskir öfgamenn myrt mörghundruð manns í Frakklandi í nafni Spámannsins, gargandi Allahu Akhbar! Þó hafa múslimar orðið fyrir litlum sem engum óþægindum af hendi stjórnvalda, a.m.k. lítið meira en aðrir borgarar landsins. Hérna er Morgunblaðið að breiða út ómengaðan Salafistaáróður án þess að blaðamaður sýni nokkurn skilning á efninu eða taki krítíska afstöðu. Lélegt!
Slæðunni svipt af fordómum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.10.2016 | 17:24
Skræfur, kisulórur eða píkur?
Erlendar fréttir í íslenskum fjölmiðlum eru eins og allir vita lítið annað en hráþýðingar úr ensku á fréttaskeytum frá Reuters eða AP. Því miður koma ekki margir snjallir þýðendur að þessu starfi, þó ekki megi alhæfa. Hérna hefur sá sem snaraði skeytinu greinilega ekki náð brandaranum. Sergej Lavrov (Sergej auðvitað, ekki Sergey, við erum ekki enskumælandi)talar ensku eins og innfæddur. Hann lætur ekkert óviljandi út úr sér og enn síður eitthvað óviðurkvæmilegt. Hann er hér að nota orðaleik. Pussy (ft. pussies) þýðir í fyrsta lagi "kisa". Af því er t.d. dregið hugtakið "pussy-footing" sem þýðir "að fara eins og köttur í kringum heitan graut", þ.e. að haga sér eins og skræfa, að hika. Og svo er slangurmerkingin: píka. Þessa tvíræðni kalla Ameríkanar "double entendre" á einhverri undarlegri frönsku. Þess vegna gat fréttaritarinn snjalli Christiane Annanpour leyft sér að hlæja hjartanlega þótt hún sé kona. Sergej Lavrov sagði eftirfarandi á ensku: There are so many pussies around the presidential campaign on both sides that I prefer not to comment,.
Það eru svo margar píkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Málfar | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.2.2016 | 11:51
Evrópuráðið er ekki ESB-stofnun!
Það er með ólíkindum að íslenskir blaðamenn virðast gersamlega ófærir um að gera greinarmun á æðstu stofnunum Evrópusambandsins og óskyldri stofnun, Evrópuráðinu. Ísland er stofnaðili Evrópuráðsins í Strasborg (e. Council of Europe). Sú stofnun kemur ESB ekkert við. Æðstu stofnanir ESB eru síðan Leiðtogaráðið (e. European Council), þar sem þjóðhöfðingjar aðildarríkjanna koma saman tvisvar á ári eða þar um bil, þess á milli fer Ráðherraráðið (Council of Ministers) með aðkallandi störf. Fundurinn í síðustu viku var fundur Leiðtogaráðs ESB, ekki Evrópuráðsins!
Leiðtogaráðið og ráðherraráðið eru fulltrúar aðildarríkjanna og fara með hið eiginlega vald.
Hinar tvær aðalstofnanirnar eru Framkvæmdastjórin og Þingið sem eru alríkisstofnanir (e. federal).
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 17.4.2017 kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)