Færsluflokkur: Evrópumál
28.9.2017 | 13:54
Blaðabörn: Evrópuráðið er ekki ESB-stofnun!
Þó að menn hafi þúsund sinnum leiðrétt endalausar rangfærslur í íslenskum fjölmiðlum halda ómenntaðir krakkar sem eru látnir snara fréttaskeytum áfram að endurtaka sömu villurnar, frétt eftir frétt, ár eftir ár. Ísland er stofnaðili að Evrópuráðinu í Strasborg. Á ensku: Council of Europe. Sú stofnun kemur ESB ekkert við! Æðsta stofnun Evrópusambandsins heitir á íslensku Leiðtogaráðið eða Leiðtogaráð Evrópusambandsins. Þar koma saman æðstu þjóðhöfðingjar ESB-ríkja. Því miður var þeirri stofnun valið nafn á frönsku og ensku sem líkist um of nafni eldri stofnunarinnar, þ.e. The European Council.
Trúlega er það grunnskilyrði fyrir ráðningu sem blaðamaður á Morgunblaðinu að hafa ekki grænan grun um uppbyggingu evrópskra stofnana. En ekki eykur þetta traust á gæði íslenskrar fréttamennsku!
ESB miðli málum í Katalóníudeilunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.4.2017 | 21:05
Eigið þið ekki rifna íslenska fána eða bandaríska? Hve djúpt getur Mogginn sokkið?
Hvers konar fréttamennska er það að geta ekki skrifað fimm línur um Evrópu án þess að drita yfir samstarf Evrópulanda með háðsglósum eða hatursfullum myndbirtingum eins og hérna?
Morgunblaðið hefði getað orðið virðingarvert stórblað. Einu sinni var þar að finna metnaðarfulla menningarumfjöllun. Lesbókin var eitt mikilvægasta menningartímarit landsins. Síðan tóku við menn sem fannst mikilvægara að gefa út sérblöð um sjávarútveg, bílasölur og fasteignir. Síðustu árin hefur Mogginn ekki verið annað en aumkunarverður áróðurssnepill. Honum hrakar frekar en hitt. Í Danmörku eru til virðingarverð stórblöð sem styðja íhaldsmenn: Jyllandsposten og Berlingske. Í Þýskalandi Frankfurter Allgemeine Zeitung og Die Welt. Í Noregi: Aftenposten. Í Svíþjóð: Svenska Dagbladet og Göteborgs-Posten. Á Íslandi: Ekkert.
Fjölmiðill sem vill láta taka sig alvarlega hefur eina grjótharða reglu: Á milli frétta og skoðanagreina skal vera járnþil! Morgunblaðinu er gjörsamlega ókunnugt um þessa reglu. Allar "fréttir" og framsetning þeirra í orðum og myndbirtingum eru litaðar af pólitískri afstöðu ritstjórnar. Þannig dæmir þessi fjölmiðill sig úr leik.
ESB ekki á dagskrá næstu árin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 18.4.2017 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.7.2013 | 12:07
Sömu menn og eru á móti ESB vegna "hreinleika" dýrastofna!
Í andstöðunni við fulla aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa talsmenn bænda haft hátt um að vernda þyrfti íslensku húsdýrastofnana sem væru svo hreinir og í hættu ef "óhreint" kjöt eða "óhreinir" dýrastofnar yrðu fluttir inn. Þetta er sambærilegt við hreintungustefnuna heittelskuðu sem felst í því að sótthreinsa málið og koma í veg fyrir öll óþrif af skítugum erlendum orðum.
Það kemur því úr hörðustu átt þegar þessir sömu bændur ætla að blanda skítugum útlendum erfðavísum saman við hina tandurhreinu íslensku eða jafnvel koma upp "hreinræktuðum" útlendum nautgripakynjum. Sjálfur er ég sá fyrsti til að hvetja til þess að við verjum íslensku húsdýrakynin og fagna því t.d. mjög að það skyldi takast að bjarga íslenska hundinum á elleftu stundu. En þessi framganga bænda sýnir hreinræktaða hræsni.
Hérna hafa verjendur sérhagsmuna hamast og óskapast til að hafa gríðarlegar kjarabætur af almenningi sem fælust í ESB-aðild. Allt til að verja ofurtolla, niðurgreiðslur og innflutningsbönn. Þeir dirfast svo að kalla þá sem hafa hag alls almennings í huga og mæla með aðild Íslands verstu nöfnum. Vafalaust kunna þessir menn ekki að skammast sín en við hin ættum að taka okkur saman og hía á þá!
Flutt verði inn erfðaefni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.2.2013 | 22:56
Hvaða lýðræðishalli?
Tómas Ingi heldur að ekki hafi verið gengið úr skugga um hvort Íslendingar vildu ganga í ESB þegar aðildarumsókn var lögð fram. Hver skoðanakönnunin eftir aðra hafði verið gerð sem sýndi áhuga meirihlutans á aðild. Valdastéttin (Sjallar og Framsókn) vildi ekkert af því vita og gaf fólki ALDREI tækifæri til að segja hug sinn í þessu efni. En 2008 breyttist þetta. Bjarni Ben. og Illugi Gunnarsson vildu evru og leggja inn aðildarumsókn. Halldór Ásgrímsson og Jón Sigurðsson í Framsókn höfðu lengi verið sama sinnis. Í VG voru og eru mjög margir fylgjandi aðild. Nýju framboðin vildu ganga í ESB. Í landsfundarsamþykktum flokkanna stóð í flestum tilvikum að sækja ætti um. Í kosningum 2009 fengu flokkar meirihluta sem vildu leggja inn umsókn. Vilji almennings á þessum tíma var að ganga til samninga við ESB. Meirihluti Alþingis samþykkti umsókn. Hvað er ólýðræðislegt við þetta?
Samstarfsflokkur Samfylkingar VG var og er klofinn í málinu. Í stjórnarsáttmála var gerð málamiðlun, eins og allar samsteypustjórnir þurfa að gera, þar sem samþykkt er að leggja inn umsókn og semja um aðild EN AÐ LÁTA KJÓSENDUR TAKA ÁKVÖRÐUN UM INNGÖNGU EÐA EKKI ÞEGAR SAMNINGUR LIGGUR FYRIR. Þetta hafa allar aðrar þjóðir sem gengið hafa í ESB (eða samið og hafnað síðan samningi eins og Noregur og að vissu leyti líka Sviss) gert svona. Lítur Tómas Ingi svo á að öll Evrópulönd séu fasísk?
Maður veit svo ekki hvort maður á að hlæja eða gráta þegar Sjálfstæðismenn af öllum mönnum þykjast vera boðberar beins lýðræðis. Þeir sem einmitt hafa þjösnað í gegn Nato aðild og herstöðvarsamningi án þjóðaratkvæðis og stuðningsyfirlýsingu við innrás BNA í Írak án þess einu sinni að þingið væri spurt álits! Ár eftir ár sýndu allar skoðanakannanir að meirihluti Íslendinga var jákvæður gagnvart ESB aðild og seinna einnig gagnvart upptöku evru. En Davíð Oddsson endurtók bara eins og rispuð plata að aðild væri ekki á dagskrá. Þá stóð aldrei til að spyrja einn eða neinn. Alþingi samþykkti þessa umsókn og því fylgdi að af henni verður ekki nema þjóðin samþykki hana í þjóðaratkvæði. Þetta er raunverulegt lýðræði, ekki þjösnagangur Sjálfstæðisflokksins. Sama hvað nei-liðar garga.
Vettvangur lýðræðisins í Evrópu er þjóðþing, samfélag og fjölmiðlar aðildaríkjanna fyrst og fremst. Engu landi er hleypt inn í ESB nema að geta sannað að það virði grundvallarreglur lýðræðis og réttarríkis. Evrópuþingið er kjörið beinni kosningu og fær sífellt meiri völd. Engin alþjóðastofnun er nálægt því eins lýðræðisleg og ESB.
Ef aðildarríki fellir einhverja tillögu í þjóðaratkvæðagreiðslu (Danmörk eða Írland t.d.) er komið til móts við það land með einhverju móti. Danir felldu Maastricht-sáttmálann 1992 og í Edinborg ´93 (á næsta toppfundi) fengu þeir fjórar undantekningar (frá evrunni, dómsmálum, utanríkismálum o.fl.) sem gilda enn. Síðan var kosið aftur í DK og nýr samningur gekk í gildi með varanlegum undantekningum fyrir Danmörku. Sama hefur verið á Írlandi. Ef kosið er aftur er verið að kjósa um breyttan texta (þeir fengu tryggingu fyrir áframhaldandi hlutleysi Írlands og að þeir þyrftu ekki að leyfa fóstureyðingar o.fl.). Menn gaspra út í loftið um lýðræðishalla ESB án þess að nokkur reyni að sýna fram á dæmi þess. Evrópuþingið er kosið beinni kosningu og ræður núna miklu eða mestu í flestum málaflokkum. Endanleg ákvörðun er ekki tekin fyrr en Ráðherraráðið (með fagráðherrum hvers ríkis) eða Leiðtogaráðið (þar sitja þjóðhöfðingja aðildarríkja) hefur samþykkt málið. Allir sem þar sitja eru þjóðkjörnir. Í framkvæmdastjórninni sem leggur fram tillögur að lögum sitja embættismenn, teknókratar. Þeir eru skipaðir en ekki kosnir, en þeir verða að mæta fyrir Evrópuþingið sem getur hafnað þeim. Það hefur gerst nokkrum sinnum og öll framkvæmdastjórnin hefur þurft að víkja vegna vantrausts í þinginu. Svo það sem margir halda fram um lýðræðishalla í Sambandinu er beinlínis rangt. Hvaða embættismenn á Íslandi eru kosnir eða þurfa að standa kjósendum reikningsskil (aðrir en forsetinn) ?
Lýðræðishalli ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.5.2012 | 21:13
"Evrusvæðið er mikilvægasta markaðssvæði okkar".
Vinstri- og hægri vaktir ýmiss konar halda því að mönnum að Evrópa skipti engu máli, þar sé allt á hausnum o.s.fr. Við eigum því að versla við Ameríku, Kína, Brasilíu og guð má vita hvað. En:
Sumir virðast endilega vilja gleyma því að Kaninn yfirgaf okkur ein og varnarlaus hér á skerinu árið 2006 og DO, Björn Bjarna og Styrmir stóðu grátklökkir eftir. Mestalla 20. öld höfðum við sérkjör við Engilsaxa, sérstaklega BNA vegna hernaðarlegs mikilvægis í heimsstyrjöldunum og síðan í Kalda stríðinu. Amerískir markaðir voru galopnir fyrir íslensk fyrirtæki, auk þess sem Íslendingar fengu alls konar sposlur sem öðrum stóðu ekki til boða. Flestir diplómatar virðast hafa litið á eyjarskeggja sem dekurbörn, en þeir borguðu samt þar sem þeir töldu að svo mikið væri í húfi fyrir BNA sjálf. Bandaríkjamenn hafa enga ástæðu til að veita okkur einhver sérkjör núna (sumir eru að vona að Norðurhjaramál geri okkur aftur spennandi, en það gæti orðið langt í það). Auðvitað er frábært ef mönnum tekst að halda stöðu sinni í N.-Ameríku. En hvað varð um íslensku sjávarútvegsfyrirtækin þar? (Coldwater o.s.frv.).
En burtséð frá því þurfa menn að sinna þeim mörkuðum sem þeir þekkja, sem þeir hafa einhverja menningarlega innsýn í, þar sem er hefð fyrir að menn vilja versla við okkur og sem ekki eru of langt í burtu. Menn geta þannig sinnt sínum erindum í Evrópu á einum degi og verið komnir heim um kvöld! Ekkert af þessu gildir um Brasilíu, Kína eða Indland, eins spennandi og þau þó eru.
Að síðustu: Danir hafa að vísu sína dönsku krónu, en hún er rígbundin við evruna (1.3% vikmörk!), eins og hún var áður bundin við þýska markið í áratugi. Hagfræðingur frá London School of Economics sem oft hefur komið hingað orðaði þetta ágætlega:" Evran er gjaldmiðill Dana, en þeir kjósa að kalla hana danska krónu!"
Kröftugri útflutningur en spáð var | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.5.2012 | 21:40
HJÁLP! ESB vill kynna sig á Akureyri!
"Hvað skyldu "JÁ" sinnar segja ef "NEI" sinnar væru að opna stofur hér og þar til að kynna fólki efni og innihalds ESB samningsins..???": þetta er ein af furðulegum athugasemdum í tengslum við opnun upplýsingastofu um Evrópumál á Akureyri. Samningur liggur ekki fyrir. Hins vegar er alla daga rekinn hræðsluáróður gegn ESB og þeim þjóðum sem þar starfa saman í Mogga, Útvarpi Sögu og Bændablaðinu. Moggalygin kostuð af LÍÚ-mafíunni en Bændablaðinu stýrt af landbúnaðarmafíu fyrir fé skattgreiðenda. Hvað ætli nei-sinnar segðu ef til stæði að læða landinu inn í þetta samband án upplýsinga eða umræðu? En þegar reynt er að koma staðreyndum til skila er gargað: landráð, þjóðníðingar, heimsendir! Og koma Evrópumál ekki öðrum við en Reykvíkingum?
Evrópusambandið hefur fullan rétt til að kynna sjálft sig og eigin starfsemi, alveg burtséð frá því hvort Ísland verður nokkurn tíma aðili að því. ESB er til og hefur verið í 60 ár. Miðað við íslenska umræðuhefð er sífellt ólíklegra að takist að koma að skynsemdarorði. Kannski ætti enginn sem er vel við Evrópu að óska álfunni svo ills að fá hina sjálfumglöðu og vanþroskuðu eyjarskeggja innanborðs!
Samy, 7.5.2012 kl. 21:18
26.4.2012 | 12:39
Martin Schulz: Kapo eða lýðræðishetja?
Samkvæmt þeirri ágætu heimild Wikipedíu fæddist Martin Schulz árið 1955 nálægt Aachen, sem er eins vestarlega og komist verður í Vestur-Þýskalandi (við landamæri Hollands, Belgíu, Frakklands og Lúxemborgar). Þetta eitt ætti að geta skýrt brennandi áhuga hans á náinni samvinnu þessara nágrannalanda.
Sem nýr forseti Evrópuþingsins er hann að berjast af hörku fyrir auknum áhrifum hins lýðræðislega kjörna þings í ákvörðunarferli ESB (gegn ríkisstjórnum í Ráðherraráðinu og ókjörnum embættismönnum í Framkvæmdastjórn). Ef einhverjum finnst ESB ekki nógu lýðræðislegt, þá ættu þeir að geta séð að Schulz er "góði gæinn" í þessum málum!
9.12.2009 | 01:55
Evran og vandræði Grikklands, Írlands o.fl..
Samkvæmt nýjustu fréttum á Grikkland, sem fékk að taka upp evru árið 2001, í miklum efnahagserfiðleikum. Þetta gefur hatursmönnum Evrópusambandsins tilefni til að hamra á þeirri sannfæringu sinna að evran sé til bölvunar. Þeir erfiðleikar sem ýmis evrulönd berjast núna við sanna þó einmitt að hagstjórn í Evrópu er ekki sameiginleg. ESB er langt frá því að vera ríki með sameiginlega stefnu í öllum málum. Reyndar er það rétt að í sumum stofnríkjum sambandsins dreymdi marga um að sambandið yrði að endingu sambandsríki. Núna er ESB nær því að vera ríkjasamband (sjálfstæðra og fullvalda ríkja), þó að það hafi líka marga eiginleika sambandsríkis. Valéry Giscard d'Estaing, fyrrum Frakklandsforseti og helsti höfundur að "Stjórnarskrársáttmála fyrir Evrópu ", (sem var felldur eins og allir vita), kallaði sambandið einhvern tíma "opni, á ensku:UPO, þ.e.a.s. "objet politique non identifié" eða á ensku: "an Unidentified Political Object". Sbr. UFO: an Unidentified Flying Object.
Það getur vel verið að það leiði til hörmunga í einhverjum löndum að hafa tekið upp evruna en látið hjá líða að taka upp skynsamlega hagstjórn. Annað hvort verða viðkomandi ríki að taka sér tak eða þetta leiðir til framþróunar í sambandinu. Öll framþróun í Evrópusamstarfi er þannig til komin. Fullvalda ríki taka ekki í mál að deila fullveldi sínu með öðrum nema þau sjái sér hag í því, helst ef þau eiga ekki völ á öðru. Aðildarríkin hafa ekki verið hersetin af óvinaher, þau hafa kosið að koma á nánu samstarfi af því að þau sáu sér hag í því. Ef þau meta stöðuna öðru vísi geta þau alltaf dregið sig út úr samstarfinu aftur. Þetta hefur alltaf verið svo en með Lissabon-sáttmálanum sem er nýgenginn í gildi (1. desember) er það beinlínis tekið fram í sérstöku ákvæði að ríki geti gengið úr sambandinu ef þeim sýnist svo.
Grikklandi var smyglað inn á evrusvæðið með upplognum hagtölum (e.: creative accounting). Þetta kom í ljós við stjórnarskipti, þegar nýkjörin ríkisstjórn í Aþenu þurfti að hreinsa til eftir fyrirrennara sína, (minnir þetta á eitthvað?). Öll þau lönd sem nú hafa tekið upp evruna hafa þurft að leggja geysimikið á sig við að taka til í hagstjórn áður en þeim var leyft að taka upp þennan sameiginlega gjaldmiðil. Þetta gildir líka um lönd eins og Frakkland. Belgíu og Ítalíu var hleypt inn, þrátt fyrir að skuldir ríkisins færu vel yfir 100% af landsframleiðslu, (hámark samkvæmt Maastricht eru 60%). Löndin í ESB eru jafn mismunandi og þau eru mörg, en ef þau ætla að innleiða evruna verða þau að taka sig á ef ekki á illa að fara. Þetta gildir auðvitað líka um Ísland ef landið stefnir að upptöku evru. Það hefur enginn Evrópusinni haldið öðru fram.
Nei-sinnar reyna nú hvað þeir geta til að spyrða saman Icesave-hörmungina og umsókn Íslands um aðild að ESB. Það má vera að þeim takist þetta ætlunarverk sitt, því eftir því sem lygin er endurtekin oftar, þeim mun líklegra er að gullfiskaminni almennings sjái til þess að þessi mál renni saman í eitt. En þá þarf að hamra á staðreyndum málsins.
Icesave er sköpunarverk Landsbankans, þess hins sama og Mobuto Íslands afhenti dæmdum fjársvikara á gjafverði, því það var betra að fá hann mönnum "sem væru í kallfæri við flokkinn". Svo kemur í ljós að þessir mafíósar greiddu ekki einu sinni uppsett verð, heldur tóku þeir lán í Búnaðarbankanum fyrir kaupverðinu. Það er Sjálfstæðisflokkurinn (og auðvitað varaskeifan - Framsókn líka) sem ber ábyrgð á þessu ótrúlega klúðri og hefur gert þetta land að athlægi út um víða veröld. Þeireinkavinavæddu bankana og sáu til þess að eftirlitsstofnanir voru annað hvort lagðar niður eða skipaðar klappstýrum útrásarbrjálæðinganna.
ÞETTA ÞARF AÐ MINNA Á ENDALAUST þar sem aðdáendur Flokksins eru og verða að eilífu í afneitun.